Hvað er bænahringur og hvað fer þar fram?

Bænin hefur fylgt manninum í aldanna rás og hafa margir fundið bæði huggun og líkn í henni. Bænin er sterkt og mikið afl og það að setjast niður og biðja Guð um líkn öðrum til handa er góð tilfinning og skilar þeim sem beðið er fyrir kærleika, von og hlýju. Eins og nafnið gefur til kynna gengur bænahringur út á bænina fyrst og fremst. Í bænahring sitja einstaklingar sem hafa þrá til þess að leita í bænina og biðja fyrir sjálfum og öðrum. Fyrirbænir hafa í gegnum aldirnar skilað þeim sem þurfa á hjálp að halda huggun og hjálp sem ekki er hægt að fá á annan hátt. Þegar ekkert er eftir nema vonin, þegar öll sund virðast manni lokuð er það bænin og umhyggja annarra sem gefur manni kraft sem getur skipt sköpum

   Hver bænahringur er einstakur að stærð og gerð og því er ekki nein stöðluð lýsing á því hvernig hann á að vera . Til að gefa hugmynd þá er hægt að segja;  að mjög misjafnt er hve margir sitja í hverjum hring og hefur fjöldinn ekki úrslitaáhrif á árangurinn. Einnig skapar hver hringur sina siði t.d er mismunandi milli hringja hvort að það sé sami einstaklingurinn sem stjórnar/leiðir stundina meðan í öðrum er skipst á að leiða stundina þannig að allir öðlist reynslu í að stjórna. Hver einstaklingur reynir að tæma hugann frá öllu daglegu amstri, slaka vel á og sitja í þögninni , finna samkennd með náunganum og áföllum annarra, að biðja fyrir sjálfum sér og öðrum, senda ljós, kærleika og vernd til þeirra sem á þurfa að halda.

Félaginu berast mjög margar óskir um fyrirbænir og fara þær óskir í fyrirbænabók félagsins og sjá þeir bænahringir sem starfa hjá félaginu um þá bók. Allir þeir sem að starfi félagsins koma hafa gengist undir þagnareið og því má aldrei ræða við aðra um þá sem eru skrifaðir í bænabókina.

Að sitja í bænahring tengist ekki neinu trúfélagi en við biðjum til Guðs og störfum í hans nafni. Biðjum fyrir hverri sál og sendum henni ást og kærleika. Eina skilyrðið fyrir þátttöku er löngun til þess að gera öðrum gott. Að vera í bænahring er gefandi og góð leið til þess að aga hugann. Flestir eru á einu máli með að bænastarf nýtist líka vel í hinu daglega amstri, fólk fær til baka ró og vellíðan.

Þegar erfiðleikar steðja að hjá fólki er gott að leita í bænina og hjúpa sig ljósinu. Að sitja í hring með öðrum sem einnig hafa þrá og löngun til að hjálpa öðrum er yndislegt, á milli þeirra sem slíkt gera myndast sterk vinátta og kærleikur. Hvað hver og einn fær út úr því að sitja í bænahring er mjög einstaklingsbundið en það að taka frá eina klst. á viku fyrir bænastarf er göfugt og skilur eftir ljós bæði hér í heimi sem og í andans heimi.

Anna Petra Hermannsdóttir/ Hulda Ingadóttir

Bæn.

Drottinn Jesús Kristur!

Þú hefur sagt: Komið til mín, allir þér sem erfiði hafið og þungar byrðar og ég mun veita yður hvíld. Þegar við mætum erfiðleikum og höfum byrði að bera, þá þekkir þú það betur en nokkur annar. Þess vegna komum við til þín á slíkum stundum. Oft höfum við gleymt þér Drottinn þegar allt gekk vel. Gleym þú gleymsku okkar. Þú hefur sjálfur liðið og ert kunnugur þjáningum. Þú barst þinn kross af því að þú vildir bera veikindi okkar sjúkdóma og dauða. Elska þín er eilíf og getur aldrei brugðist. Við treystum því heiti þínu. Við biðjum þig um að varðveita og bera á örmum þínum alla ástvini nær og fjær, en við segjum eins og þú. Verði þinn vilji faðir á himnum. Lát okkur aðeins finna höndina þína hvað sem annars mætir okkur. Lát okkur finna höndina þína og treysta henni, þótt við finnum hana ekki. Veit okkur traust hjartans, þolinmæði, rósemi, þann frið sem er æðri öllum skilningi. Við biðjum þig Drottinn að vera okkur ávallt stuðningur, gef að við finnum fyrir líknandi og máttugri nálægð þinni og veit okkur alla þína sáluhjálp. Ver þú okkar hreysti og líf alla daga. Bænheyr okkur í Jesú nafni. Amen.

Séra . Bolli Pétur Bollason.

 

 

Hefur þú áhuga á því að sitja í bænahring?
Ef svo er sendu okkur línu hér neðar eða heyrðu í okkur í síma 8511288.

Forsíða  |  Hollvinur  |  OPJ  |  Heilun  |  Bænarhringur  |  Starfandi miðlar  |  Saga Sálóak  |  Lög félagssins  |  Stjórn  | Hafa samband

 

Sálarrannsóknarfélagið á Akureyri | Strandgötu 37b | 600 Akureyri |  Sími: 851 1288 |  saloakr@gmail.com

 

Sálarrannsóknarfélag Íslands  |  Sálarrannsóknarfélag Suðurnesja  |  Sálarrannsóknarfélag Skagafjarðar  |  Sálarrannsóknarfélag Suðurlands  |  Bjarminn Dalvík  |