Tekið úr afmælisriti Sálarrannsóknarfélagsins

 

Árið 2003

 

 

 

Ágrip úr starfssögu Sálarrannsóknarfélagsins á Akureyri.

 

Fyrir 40 ára afmæli Sálarrannsóknarfélagsins á Akureyri, hinn 27. okt. 1993, tók frú Gréta Ólafsdóttir saman fræðsluþátt um starfssemi undangenginna 40 ára. Þessi þáttur er svo vandlega unnin að engum stafkrók þarf að breyta,allt stenst tímans tönn og kemur það hér fyrst og síðan það helsta sem gerst hefur nú síðustu 10 árin.

 

Gréta Ólafsdóttir lést 30.12.1995.

 

Blessuð sé minning hennar.

 

Aðdragandinn að stofnun Sálarrannsóknarfélagsins á Akureyri var sá að nokkrir menn í Frímúrarfélaginu höfðu áhuga á sálarrannsóknum. Töluðu þeir sig sama um að reyna að stofna félag um þau mál á Akureyri. Stofnfundur var síðan haldinn í október árið 1953 í kapellu Akureyrarkirkju. Stofnfélagar voru 51 og mættu þeir á fundinn þó hann væri ekki auglýstur og stofnuðu félagið. Málshefjandi var Steindór Steindórsson frá Hlöðum en fundarstjóri Tómas Björnsson. höfðu þeir talað við séra jón Auðuns og fengið hjá honum lög Sálarrannsóknarfélags Íslands sem þeir höfðu til hliðsjónar er þeir sömdu lög fyrir hið nýja félag.

 

Ekki var sagt frá þessu nýja félagi í bæjarblöðunum og ekki auglýsti félagið fundi til að byrja með. Vegna þess voru margir til sem ekki vissu um félagið eða hvernig þeir gætu gengið í það.

 

Lög félagsins hafa eðlilega breyst með árunum en tilgangur félagsins að efla áhuga á andlegum málum yfirleitt en þó sérstaklega að fræða félagsmenn og aðra um árangurinn af sálarrannsóknum nútímans er óbreyttur. Markmiðum sínum hefur félagið reynt að ná með ýmsu móti. Eitt af þeim markmiðum var að fá miðla til starfa. Það reyndist erfitt í byrjun og er það ekki fyrr en 1958 að Þorsteinn Sigurðsson var með skyggnilýsingar. Árið 1960 kemur Hafsteinn Björnsson til starfa hjá félaginu og kom hann nokkrum sinnum eftir það. Björg Ólafsdóttir kom árið 1972 og upp úr því fara að koma hingað miðlar bæði innlendir og erlendir og er svo komið að árið 1991 komu miðlar 13 sinnum til félagsins og árið 1992 voru þær komur 16.

 

Félagsfundir hafa verið haldnir reglulega hjá félaginu. Ritaðar heiminldir eru þó ekki til um fyrstu árin en félagsmenn voru duglegir að lesa upp og flytja erindi. Voru það bæði reynslusögur félagsmanna og erindi úr bókum,ýmist íslenskum eða erlendum sem félagsmenn þýddu. Einnig fengu félagsmenn efni að láni,því margir voru félaginu vinveittir og lánuðu bækur og erindi. En svo virðast félagsmenn minnka mikið beina þáttöku í fundum og hvílir mest á fáum mönnum að flytja efni á félagsfundum. Síðustu ár hafa fundirnir einkennst af því að fá utankomandi menn til að flytja erindi.

 

Félagið eignaðist smám saman nokkurt bókasafn. Á fyrstu árunum var ekki mikið um bækur um andleg mál og ekki gátu allir eignast slíkt. Var það hinn mesti fengur að fá lánaðar bækur, Velviljaðir félagsmenn hafa gefið félaginu bækur og nú í seinni tíð kaupir félagið bækur, bæði nýútkomnar og eldri bækur sem fást. Það sem háði safninu var húsnæðisskortur félagsins og var það á flækingi lengst framan af. Nú er verið að reyna að skipuleggja safnið og lána félagsmönnum heim. Þörfin fyrir heimlán er samt minni en áður þegar mjög fáar bækur voru til um þessi mál og bókaeign ekki eins almenn og í dag. Einnig nota margir sér bókakost Amtbókasafnsins. Segulbandaspólur átti félagið að eiga nokkrar. Sumar virðast týndar en eitthvað er til. Þyrfti að fara yfir þetta efni og skrá. Einnig er verið að vinna í að fá gamalt efni á spólum og er það einn stærsti draumur félagsins, því vitað er að mikið efni hefur verið hljóðritað hér á árum áður en mest af því er í einkaeign.

 

Nú á félagið góð upptökutæki og eru flestir fundir og fræðsluerindi tekin upp. Einnig hefur félaginu verið gefnar myndbandsspólur með efni um dulræn mál. Því markmiði að safna og varðveita frásagnir af dulrænni reynslu félagsmanna sinna og annara ásamt fáanlegum sönnunargögnum virðist félagið ekki hafa sinnt. Ekki finnast nein gögn um slíkt. Margt hefur eflaust komið til. Í hugum margra var þetta málefni sem ekki var talað upphátt um og er svo enn.

 

Árið 1985 voru sendir fulltrúar frá félaginu á þing sálarrannsóknarfélaga sem haldið var í Reykjavík. Þar voru mættir fulltrúar frá félögum svo sem Selfossi, Keflavík, Hafnafirði, Akureyri og Reykjavík. Ekki virðist það hafa leitt til miklils samstarfs félaganna en í júní 1993 var annað þing haldið á Akureyri. Voru þar mættir fulltrúar frá Blönduósi, Hveragerði, Húsavík, Ísafirði, Sauðárkrók, Óafsfirði, Akureyri og Reykjavík. Komu þar fram mikill vilji til samstarfs og er verið að vinna í samræmingarmálum á ýmsum sviðum. Nú þegar hafa formenn sálarrannsóknarfélaganna verið boðaðir á framhaldsfund.

 

Í gegnum tíðina hafa fundarstaðir félagsins verið ýmsir. Fyrstu árin voru fundir haldnir í fundasal Landsbankans, síðan féglagsheimilinu Bjargi, þá Alþýðuhúsinu, Hótel Varðborg, kaffistofu KEA og fleiri stöðum. Húanæðiseklan stóð félaginu lengi fyrir þrifum en árið 1975 fær félagið afnot af herbergi í Amaróhúsinu og hefur haft það síðan. Sú velvild sem sýnd var félaginu með þessu er ómetanleg. Þarna var síðan opnuð skrifstofa í nóvember 1976. Árið 1987 keypti félagið húsnæðið, Strandgötu 37 b. Strax á næsta ári var kosin bygginganefnd sem átti að hafa forgöngu um endurbætur á húsnæðinu. Þetta hafði verið mjölgeymsla og fleira og var vægast sagt í slæmu ástandi. Þarna lyftu félagsmenn Grettistaki. Margir lögðu hönd á plóginn en niðurstaðan var yndislegt húsnæði sem hefur verið félaginu sú lyftirstöng að það er orðið allt of lítið. Var það formlega tekið í notkun 27.maí 1990.

 

Eftir að félagið eignaðist eigið húsnæði hefur starfsemin aukist hratt. Tólf miðlar erlendir og innlendir koma reglulega og starfa á vegum félagsins. Þeir eru með einkafundi, skyggnilýsingar og í seinni tíð hefur það aukist að haldnir séu fræðslufundir og námskeið. Félagið hefur staðið fyrir stofnun hringja. Hæst ber það stóra fyrirbænahringinn en einnig eru starfandi litlir hringir bæði fyrirbæna-og þjálfunarhringir. Félagið hefur unnið að því að fá reglur fyrir hringina til að hægt sé að vinna í þeim á sem bestan og öruggastan hátt.

 

Öll starfsemi í sálarrannsóknarmálum er vandaverk. Þarf að vinna þau verk af heilindum og kærleik. Ekki verður annað séð en félagið hafi dafnað á þessum 40 árum. Vonum við að almættið haldi verndarhendi sinni yfir félaginu áfram til góðra starfa.

 

Guð blessi Sálarrannsóknarfélagið á Akureyri. (GÓ 1993)

 

Þegar haldið var upp á 40 ára afmælið, var auk heimafólks, stjórnum allra sálarrannsóknarfélaga á landinu boðið til fagnaðarins, af miklum myndaskap. Það hefur sýnilega verið gert til að efla samstöðu og samkennd fólks á þessun áhugasviði. Skúli Viðar Lórenzson var þá formaður en það var hann í 6 ár og vann mikið og gott starf í þágu málefnisins, enda hefur tala skráðra félaga ekki orðið hærri hvorki fyrr né síðar. Það var ekkert smá verkefni að hala inn peninga til að koma húsnæðinu í gagnið og laukrétt sem Gréta sagði að félagsmenn lyftu þar Grettistaki. Í þessum myndarlega afmælisfagnaði skemmtu miðlarnir Ruby Gray og Þórhallur Guðmundsson. Áfram er haldið, fyrirlesarar og miðlar fengnir til starfa 10-15 manns ár hvert. En það er erfitt að reka félag sem á engan fjársterkan bakhjalla. Allt, bókstaflega allt, er unnið í sjálboðavinnu af félagsmönnum og oftar en ekki einhverjir fáir einstaklingar sem bera hitann og þungann. Félagið hefur einnig notið mikillar velvildar út á við, aðfengnir fyrirlesarar hafa oftast gefið vinnu sína og ýmsir miðlar sýnt mikla velvild. Þannig mjakast starfið áfram. Þarna, inn í þetta litla hús hefur legið stöðugur straumur fólks sem finnur hvöt hjá sér til að kanna hvort það finnur einhver svör við því hvað er í gangi hjá því ef það skynjar eitthvað öðruvísi en aðrir, eða til þess að spjalla um eilífðarmálin. Hinn 18.11.94 er svo boðað til fundar, stórtíðindi á döfinni því eigandi neðri hæðarinnar býður plássið til sölu á kr. 1800 þúsund. Að vísu var ekkert fjármagn fyrir hendi til kaupa á þessari viðbót sem áður hafði verið bakland stærsta bakarísins í bænum og hafði látið sig allmjög eftir að því hlutverki lauk. Ef þið hefðu séð húsnæðið meðan það var notað til að taka við óþveginni ull frá bændum, hefðuð þið talið það vera fokhelt. En hvort tveggja var að efri hæðin varð strax of þröng og svo hitt að þó reynt hefði verið að selja það húsnæði, þá hefði andvirðið dregið skammt upp í nýtt svo ákveðið var að ráðast í að kaupa.

 

Nú var ekki að sökum að spyrja, það þurfti enn að bretta upp ermararnar . Efnt var til happdrættis um jólin 94 og á árinu 95 var efnt til dulrænna daga bæði í maí og október með fyrirlestrum, skyggnilýsingum, heilun og fyrirbænum. Einnig bárust góðar gjafir, m.a. færðu dætur Idu Þórarinsdóttir og Stefáns Ásgerirssonar félaginu fagran áletraðan silfurkertastjaka og 100.000 króna peningagjöf til minningar um foreldra sína og bróðir sinn, Ásgeir sem dó ungur. Áður hafði Ida Þórarinsdóttir gefið félaginu fjárupphæð. Segja má með sanni að maður gekk undir manns hönd við að koma nýfengna húsnæðinu í gagnið, þar þurfti að þrífa út, skipuleggja og byggja nánast allt upp frá grunni. Þar fengust tvö vinnuherbergi fyrir miðla og aðra starfssemi, lítið eldhús og aðstaða fyrir kaffisopa og spjall, biðstofa sem nýtist einnig fyrir stjórnarfundi, skrifstofa og snyrting. Ekki eru þetta stórar vistaverur en nýtast ágætlega og stærri fundir eru uppi, í húsnæðinu sem áður hefur verið fjallað um.

 

Þessi uppbygging gekk mjög hratt, því 10. mars 95 býðst höfðingskonan Þorgerður í Teigi til að halda veislu, iðnaðarmönnum og öðrum sem lögðu hönd á plóginn við nýja húsnæðið og sátu 25 manns það kvöldverðarboð. Einnig gaf Þórhallur Guðmundsson fjögurra daga vinnu til styrktar málefnunu. Hinn 18. mars 95 var svo nýji hlutinn tekin í notkun með því að hafa húsnæðið til sýnis og kaffiveitingar á efrihæðinni og komu milli 40 og 50 manns. Í október 1995 héldu sálarrannsóknarfélögin á Íslandi, landsþing á Hrafnagili, þá telur Sálarrannsóknarfélagið á Akureyri 1000 meðlimi. Í júní 1996 segir Skúli Viðar Lórenzson af sér formennsku eftir 6 ára þrotlaust strit. Síðan þá hafa verið nokkuð ör mannaskipti í forystuliðinu en það sýna margir aðstandendur eilífðarmálanna mikla fórnfýsi og höfðingslund, þar er vandi með að fara því hagur og aðstæður fólks er svo mismunandi en allstaðar skín velvildin í gegn og gefur þeim baráttuþrek sem í stafni stendur hverju sinni. Árið 2000 eru félagsmenn um 800 talsins samkvæmt fundargerðabók og um haustið er haldinn hátíðarfundur og minnst hundrað ára fæðingarafmælis Ólafs Tryggvasonar sem var einn af stóru stoðum félagsins meðan hanns naut við. Ári seinna var húsið málað að utan en inni var málað vorið 2002 vona ég að enginn taki upp fyrir mér þó ég segi að þar hafi Björn Jónsson verið félaginu drjúgur máttarstólpi eins og á fleiri sviðum. Einnig er þakið lagað á þessu næstliðna ári og hitaveitan tekin inn uppi, vorið 2002. Nú eru félagsmenn 450 talsins.

 

Það má segja að innra starf félagsins sé í svipuðum farvegi og verið hefur, það eru yfir vetrartímann um fjórtán hópar sem koma sama vikulega til bænaiðkunar eða annarrar andlegrar starfsemi, félagsfundur eru mánaðarlega, tala miðla og fyrirlesara svipuð og ég talaði um í upphafi en fræðsluþátturinn stendur höllum fæti. Bókakostur hefur rýrnað, myndbandsspólur fyrirfinnast ekki og söfnun á reynslusögum og fyrirburðum sem var á stefnuskrá félagsins hefur farið fyrir róða. Hins vegar höfum við hlustað á allt efni sem til var í fórum félagsins á segulbandsspólum og látið setja það sem fengur var í á geisladiska, en það efni var allt frá eldri tíma. Einn ágætur djúptransmiðill sem unnið hefur hjá félaginu hélt nokkra fræðslufundi sem teknir voru upp á diska og er það eftirtektarvert efni.

 

Þegar litið er yfir feril félagsins í heild þessa hálfa öld, sést hversu margt ágætisfólk hefur lagt félaginu lið. Það yrði of langur listi upp að telja, þó vil ég geta þess hér, að úr fyrstu stjórn eru enn tvær manneskjur meðal okkar, þau Erna Árnadóttir sem var í stjórn frá upphafi til ársins 1975, eða í 22 ár og Jón Sigurgeirsson sem var í stjórn frá upphafi til ársins 1981, eða í 28 ár þar af 18 ár sem formaður og er það lengsta formannsseta í félaginu. Fyrst á tók að mér að tína saman þessi sögubrot, væri það yfirdrepskapur hjá mér að halda því fram að allt starf félagsins hafi runnið fram átakalaust, því fer fjarri. Það hefur komið upp skoðanamunur, metingur og átök sem urðu til þess valdandi að margt ágætisfólk dró sig í hlé, sært og vonsvikið. Þetta ber að harma, því það veldur öllum viðkomandi skaða. Vert er að hafa í huga að fólkið sem aðhyllist Spíritismann er eins og annað fólk, með sömu þrár, þarfir og langanir og einnig sömu annmarka. Það verður enginn einstaklingur betri en hann vill vera hvað sem félagið hans heitir.

 

 

 

Ég óska Sálarrannsóknarfélaginu á Akureyri vaxtar og velfarnaðar í framtíðinni.

 

Kæru félagar.

 

Sá sem bjó til blómin. Blessi ykkur öll.

 

Ingibjörg Björnsdóttir.

Forsíða  |  Hollvinur  |  OPJ  |  Heilun  |  Bænarhringur  |  Starfandi miðlar  |  Saga Sálóak  |  Lög félagssins  |  Stjórn  | Hafa samband

 

Sálarrannsóknarfélagið á Akureyri | Strandgötu 37b | 600 Akureyri |  Sími: 851 1288 |  saloakr@gmail.com

 

Sálarrannsóknarfélag Íslands  |  Sálarrannsóknarfélag Suðurnesja  |  Sálarrannsóknarfélag Skagafjarðar  |  Sálarrannsóknarfélag Suðurlands  |  Bjarminn Dalvík  |